Hvergiland

Greinin birtist upphaflega í 5. tbl tímaritsins HA - Hönnun og arkitektúr - sem kom út í maí 2017.

4 einföld skref að stórborginni Reykjavík

Borgin öll, allt höfuðborgarsvæðið – REYKJAVÍK – stendur á tímamótum. Eitt mesta uppbyggingarskeið í sögu borgarinnar stendur nú yfir en á sama tíma ríkir krísa í húsnæðismálum, sérstaklega hjá ungu fólki. Vandinn er djúpur og kerfislægur og verður ekki leystur á næstu árum jafnvel þótt mikið og samstillt húsnæðisátak komi til. Óþreyja gagnvart þéttingu byggðar fer vaxandi og um leið eykst þrýstingurinn á að borginni verði sleppt lausri á ný og áfram verði byggt utan núverandi borgarlands. Við borginni blasir krítískt breytingaskeið sem mun skilgreina Reykjavík 21. aldarinnar. Úthverfastefnan, með tilheyrandi umferð og aðgreiningu, er fullreynd tilraun og eina raunhæfa leiðin til eflingar borgarinnar er vöxtur inn á við. Áratugalangri útþenslu borgarinnar er lokið og hafin er öld þéttingar.

Vatnsmýrin hefur löngum verið talin týnda púslið í borgarmyndinni en jafnvel þótt fyrirsjáanleg frestun verði á uppbyggingu þar er listinn yfir vænleg og væntanleg þéttingarsvæði í raun ótæmandi: Austurhöfn, Vesturbugt, Ánanaust, Suðurgata, Vísindagarðar, Skerjafjörður, Hlíðarendi, Öskjuhlíð, KHÍ, Kringlan, Safamýri, Efstaleiti, Hverfisgata, Heklureitur, Borgartún, Kirkjusandur, Laugarnes, Suðurlandsbraut, Ármúli, Síðumúli, Skeifan, Gufunes, Spöngin, Vogabyggð, Höfði, Árbær, Efra-Breiðholt, Mjóddin, Bæjarlind, Smárinn, Auðbrekka, Hamraborg, Kársnes, Kauptún, Hraunin og Fjörður. Þétting byggðar næstu áratugi, gjörið svo vel.

Umrædd svæði fela í sér augljósa möguleika á þéttri blandaðri byggð með tugþúsundum íbúða. Á flestum reitanna eru áform um þéttingu tiltölulega óumdeild enda eru margir þeirra svo opnir og óskilgreindir og landflæmið til uppbyggingar slíkt að „þétting byggðar“ er engan veginn nógu umfangsmikið orðalag til að útskýra fyrirhugaða framkvæmd. Í öðrum tilvikum er „þétting byggðar“ hreinlega rangyrði þar sem svæðin eru í sjálfu sér algerlega ný og sjálfstæð, rétt eins og öll hverfi höfuðborgarsvæðisins hafa verið á síðustu áratugum.

Allar þessar áætlanir og uppdrættir eru í samræmi við markmið aðalskipulags Reykjavíkur og snúast því fyrst og fremst um stjórnun á hagnýtingu borgarlandsins fremur en að horft sé gagnrýnum augum á sjálft borgarrýmið. Þetta eru uppfyllingar í eyður sem hafa af ólíkum ástæðum myndast í borgarlandinu en í fæstum tilvikum raunveruleg endurskoðun á því sem er úrelt, rangt eða sárlega vantar í núverandi borgarrými.

Skipulag er í eðli sínu seigfljótandi og lengi í framkvæmd. Til þess að ná árangri í endurnýjun borgarinnar þurfum við að beita skilvirkari verkfærum til að marka nauðsynlega stefnubreytingu. Arkitektúr snýst um að formgera hugmyndir og stilla þeim upp gagnvart umhverfinu. Rétt bygging á réttum stað getur brotið upp staðnað borgarrými og komið af stað keðjuverkandi endurnýjunarferli. Hver ný bygging er þannig tækifæri til að taka afgerandi afstöðu til borgarinnar og með bættum borgarbrag.

Ef arkitektúrnum er beitt á réttan hátt má jafnvel kynna til leiks byggingar og hugmyndir sem til að byrja með kunna að virðast framandi en rísa í raun ofar sjálfu skipulaginu og marka djúpstæð spor í þróun borgarinnar. Nýjum tímum fylgja nýjar hugmyndir sem gefa þarf pláss í borginni, jafnvel á kostnað annarra eldri sem þarf að endurhugsa eða einfaldlega taka úr umferð.

Fyrsta skref að
stórborginni Reykjavík:

nýtt Stjórnarráð á Arnarhóli og styrking og efling kjarna borgarinnar. 

 

Kvosin er hornsteinn Reykjavíkur. Þar er elsta og þróaðasta borgarumhverfi á Íslandi og jafnframt upphaf byggðar í landinu. Þar er að finna fornleifar í jörðu, falleg gömul timburhús og bestu dæmin um íslenskan borgararkitektúr. Kvosin er með öðrum orðum ekki frosin í tíma heldur í sífelldri þróun og ber stolt merki frá öllum byggingarskeiðum borgarinnar.

Hafnartorg og fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu sem nær út að Hörpu munu á næstu árum gjörbreyta dýnamíkinni í miðborginni og fara langt með að fullnýta byggingarland Kvosarinnar. Krafturinn í mannlífinu verður meiri og púlsinn sterkari. Í þessu felast tækifæri fyrir miðborgina; að meitla fram og byggja enn nýrri borgarrými sem myndu stækka og styrkja miðborgina enn frekar. 

Ný gatnamót Geirsgötu og Lækjargötu eru fyrsta vísbendingin um það sem koma skal og afhjúpa í raun eina merkilegustu byggingarlóð landsins. Í dag liggur þar niðurgrafinn bílastæðakjallari Seðlabankans en með Hafnartorgi og nýju gatnamótunum er borgin farin að kalla á að þarna rísi ansi kröftug stjórnsýslubygging. Þarna mun Stjórnarráð Íslands að lokum rísa yfir ösinni í miðborginni. Þunglamaleg og klassísk borgarbygging með sterkum íslenskum vísunum.

Nýtt Stjórnarráð gæfi Arnarhóli sitt endanlega fastmótaða form sem samkomustaður þjóðarinnar, rammaður inn í fortíð og framtíð með landsföðurinn Ingólf í öndvegi og útsýni út á sundin blá. Hið afmarkaða rými er lykilatriði frekar en sjálft Stjórnarráðið. Það myndi hliðra þungamiðjunni til, frá Austurvelli yfir á Arnarhól, og víkka út skilgreint svæði Kvosarinnar. Ég vona að á jarðhæðinni, sem myndi vísa út að hólnum, verði góður salatbar með uteservering og vínbar fyrir aristókratana.

Annað skref að
stórborginni Reykjavík:

Bleiki pardusinn á Snorrabraut og að virkja íbúa sem þátttakendur í mannlífi borgarinnar

 

Snorrabraut er ein áhugaverðasta og vanmetnasta gata borgarinnar. Fyrir það fyrsta er hún eina gatan sem hefur raunverulegan möguleika á að verða búlevardið sem mun binda gamla miðbæinn við sjálfa borgina, sem mun að endingu rísa í Vatnsmýrinni. Breiðstræti frá vík til víkur og jafnvel áfram út á Kársnes.

Að virkja Snorrabraut snýst hins vegar ekki bara um að tengja hið gamla við hið óumflýjanlega. Snorrabraut sem virkt borgarrými skapar nýtt bakland fyrir Þingholtin og gerir Norðurmýri, og í raun allt Hlíðahverfið, hluta af stækkandi miðborg. Þungi miðborgarinnar teygir sig sífellt lengra upp Laugaveginn og umhverfið í kringum Hlemm hefur fengið sinn eigin hjartslátt. Snorrabraut liggur þvert á þennan ás og þar er möguleiki á nýrri vídd inn á flatan og einvíðan vaxtarás núverandi borgarumhverfis. Þessi hverfi umhverfis Snorrabraut eru ekki bara tilbúin heldur í raun farin að bíða eftir tækifæri til að taka ríkari þátt í mannlífi borgarinnar. Jarðvegurinn og áhuginn meðal íbúanna er til staðar en það vantar smá neista.

Að draga vöxt borgarinnar hornrétt á núverandi vaxtarás myndi breyta og flækja flæði fólks um miðborgina og auka mannlífið á hliðargötunum milli ásanna tveggja. Slík þróun myndi þroska og styrkja núverandi bakland miðborgarinnar en um leið færa virk landamæri hennar fram að Nýju-Hringbraut. Þegar þangað verður komið getum við sleppt borginni lausri á ný og leyft henni að springa út í Vatnsmýrina sem náttúrulegu framhaldi af núverandi borgarumhverfi.

Inngrip er nauðsynlegt en það getur verið einfalt: Lítill, þröngur bar, helst á lóð bensínstöðvar ÓB gegnt Flókagötu, með löngu barborði, tveimur borðum við glugga mót götu og pínulitlu dansgólfi aftast ætti að duga til að koma ferlinu af stað. Barinn þarf helst að vera lítill og mjög vinsæll þar sem raðir búa til ímynd vinsælda og þrengsli eru svo dásamlega urban.

Nafn: Bleiki pardusinn. Íbúðir með mikilli lofthæð á efri hæðum.

Þriðja skref að
stórborginni Reykjavík:

fjórir turnar á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar og
endurskilgreining á göturými borgarinnar.

 

Jafnvel þótt malbik, umferðarmannvirki og helgunarsvæði nái yfir meira en helming borgarlandsins er í raun merkilegt hversu samofið gatnakerfið er við restina af borginni. Þetta á kannski mest við í eldri hlutum borgarinnar, eða fram að Elliðaárvogum, og í eldri hverfum Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar. Helstu stofnbrautir þessara hverfa liggja innan þeirra en ekki utan eða í kringum þær. Þó að þær skeri oft í sundur og deili hverfunum í tvær mismunandi einingar eru þessar brautir hluti af hverfunum en ekki afskorið og hliðstætt samgöngukerfi sem snýst bara um að komast úr einum hluta borgarinnar í annan.

Þegar skoðaðar eru gamlar myndir frá Reykjavík þar sem umferðin, mengunin, hávaðinn og hljóðmanirnar hafa ekki komið til skjalanna skilur maður hugmyndina og fegurðina á bak við þann veruleika sem módernistarnir og hinir upphaflegu einkabílistar voru að reyna skapa. Það var einhver mjög tær og falleg framtíðarsýn þarna að baki um flæði, skilvirkni og hreinleika sem okkur hefur fyrir löngu orðið ljóst að var óraunhæf útópía. Aukin umferðarrýmd kallar bara á heilsuspillandi borgarumhverfi með meiri umferð, skaðlegu svifryki og slæmri hljóðvist.

Ef við höldum áfram að einblína á borgina út frá þægindum einkabílsins er ólíklegt að okkur takist nokkurn tímann að minnka hlutdeild gatnakerfisins í borgarlandinu. Við getum hins vegar líka ákveðið að það verði ekki stærra en það er í dag og hafist handa við að endurskilgreina göturýmið sem annað og meira en einkaeign einkabílsins. Við þurfum að færa borgina nær götunni og takmarka vöxt gatnakerfisins. Innlima það í sjálft borgarrýmið og opna á fjölbreyttari samgöngumáta. Í því felst hin raunverulega og nauðsynlega aðför að einkabílnum.

Með því því að reisa fjóra stæðilega íbúða- og skrifstofuturna á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar yrði mikilvægt skref tekið í átt til þess að færa borgina inn á helgunarsvæði einkabílsins. Turnarnir fjórir myndu þrengja verulega að rými einkabílsins á fjölförnustu gatnamótum landsins og hefta frekari vöxt þess. Þeir væru skýr skilaboð um að vöxtur gatnakerfisins hefði verið stöðvaður og að innlimun þess í sjálfa borgina væri hafin. Þeir væru hlið inn í framtíð Reykjavíkur og að 20 árum liðnum, þegar við keyrðum niður Miklubraut með línu 6 og virtum fyrir okkur mannlífið í húsunum í kring, yrðu hugmyndir um mislæg gatnamót löngu gleymdir og afskrifaðir draumar horfinna tíma.

Fjórða skref að
stórborginni Reykjavík:

Brautarstöð Íslands – BSÍ við enda Miklubrautar og allt höfuðborgarsvæðið sameinað í eitt samfellt borgarrými.

 

Eina raunhæfa leiðin til að mæta þeirri auknu fólksumferð sem mun fylgja auknum íbúafjölda og þéttari byggð er að byggja upp önnur samgöngukerfi umfram einkabílinn. Það að takmarka frekari framgang einkabílsins og lyfta öðrum ferðamátum hærra er í raun frumforsenda fyrir betri borgarbrag. Við verðum að stíga út úr bílnum til að geta deilt borginni hvert með öðru.

Með fyrirhugaðri borgarlínu munu öll sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins koma til með að sameinast í eitt samfellt borgarrými. Að því leyti er borgarlínan jafnvel enn mikilvægari en öll þéttingarverkefni borgarinnar. Við verðum öll tengd inn á sama kerfið og hin huglægu mörk milli ólíkra sveitarfélaga þynnast út.

Mest spennandi og mikilvægust er þó sjálf aðalbrautarstöðin, BSÍ – Brautarstöð Íslands. Á meðan leiðakerfið og vagnarnir eru hinn raunverulegi saumur sem bindur allt saman er hugmyndin um brautarstöðina ein og sér skírskotun í eitthvað miklu stærra og umfangsmeira. Brautarstöðin dregur alla borgina saman í einn samþjappaðan núllpunkt – eitt rými þar sem allir mætast en er svo pumpað út í háræðar borgarinnar. Brautarstöðin er snertiflötur ólíkra erinda en um leið tenging borgarinnar við það sem liggur utan hennar. Brautarstöðin formgerir þannig ekki einungis öll innri tengsl borgarinnar heldur er hún táknmynd tengsla við umheiminn, hvort sem er landið allt eða aðrar helstu heimsborgir.

Glæsileg aðalbrautarstöð á gatnamótum Hringbrautar og Snorrabrautar, beint ofan slaufunnar, væri viðeigandi og tilkomumikill endir á göturými Miklubrautar. Í stað Háskóla Íslands lengst niðri í bæ myndi aðalbrautarstöðin loka Miklubrautinni; breiður veggur með stóru blikkandi – B-S-Í – sem minnti stöðugt á að hinn raunverulegi núllpunktur borgarinnar hefði varanlega verið fluttur austar í miðborgina. Þar lægi stöðin í beinu sambandi við stærsta vinnustað landsins auk þriggja gróinna en vaxandi hverfa. 

Sjálfur læt ég mig dreyma um bjartan komusalinn; að standa fyrir honum miðjum með ilmandi kaffi og croissant, lygna aftur augunum og finna þytinn frá íbúum borgarinnar sem hlaupa í stressi yfir á næsta brautarpall.

Týnda púslið

 

Að leyfa sér að dreyma um stórborgina Reykjavík snýst um að trúa því að á höfuðborgarsvæðinu geti með tímanum vaxið og dafnað öflugt borgarsamfélag. Vatnsmýrin er stóra týnda púslið í hjarta borgarlandsins en mikilvægi hennar fyrir heildarmyndina hefur þó verið ofmetið. Vinsældir Vatnsmýrarinnar sem þráhyggjukennds biteplis þjóðarinnar felast í því að enginn hefur komið þangað. Mýrin er vacuum. Hún er tómarúm sem enginn hefur heimsótt heldur einungis millilent í á leið sinni annað. Vatnsmýrin er ekki staður og í raun ekki til. Hún er hvergiland sem öllum er heimilt að fylla upp í með sínum eigin pólitíska metnaði eða með stórborginni sem aldrei varð.

Framtíð borgarinnar verður ekki skilgreind út frá því hvað við gerum í Vatnsmýrinni heldur hvernig borg við byggjum utan hennar. Vatnsmýrin bíður róleg og mun að lokum byggjast en tækifærin til að marka skýr skref um framtíðarstefnu borgarinnar eru í boði núna. Hvort skrefin fjögur sem hér hafa verið kynnt séu þau réttu eða ekki er í sjálfu sér aukaatriði. Það sem skiptir máli er að þau taka afgerandi afstöðu til borgarinnar eins og hún virkar í dag og leggja fram tillögu um aðra Reykjavík þar sem mannlíf borgarinnar er metið ofar öðru. Mikilvægi hvers skrefs felst ekki í nákvæmri staðsetningu eða byggingarstíl heldur í eðli þess og afstöðu til tiltekinna eiginleika núverandi borgarlands. Markmið þeirra er að stuða núverandi borgarrými og hrista upp í stærri hugmyndakerfum sem stjórna því hvernig við upplifum og notum borgina. 

Skipulagsáætlanir ákvarða ekki hvernig borgin muni líta út eða virka eftir 20–30 ár heldur ræðst það af því hvað við raunverulega byggjum. Fögur orð um þéttingu byggðar og borgarbrag duga skammt ef borgin fær áfram að þenjast út upp á heiði. Þétting og vöxtur borgarinnar inn á við er í okkar eigin höndum og sömuleiðis hvernig borg við byggjum. Endurskipulagning og umbreyting borgar er eilífðarverkefni en ef við leyfum okkur að dreyma stórt, eitt skref í einu, verður stórborgin REYKJAVÍK að lokum okkar.