BIRKIR Ingibjartsson

Arkitekt, úrbanisti og varaborgarfulltrúi - áhugamaður um Reykjavík og meiri borg.

Á síðustu árum hafa verið stigin mörg jákvæð skref í þróun borgarinnar. Þétting byggðar er orðin hluti af meginstraumnum, Borgarlínan er komin á góðan rekspöl og nýtt aðalskipulag Reykjavíkur til ársins 2040 setur metnaðarfullan tón til næstu ára um uppbyggingu borgarinnar. Ég hef mikla trú á þeim merkilegu og mikilvægu verkefnum sem framundan eru og hef áhuga á að leggja mitt af mörkum við að fylgja þeim eftir.

Ég trúi því að næsti áratugur verði áratugur Reykjavíkur. Mikið uppbyggingarskeið er framundan og ef vel tekst til mun íbúum, fyrirtækjum og gestum borgarinnar fjölga talsvert samhliða auknum borgarbrag. Mikilli uppbyggingu fylgir mikil ábyrgð og vil ég taka þátt í að tryggja að fyrirhuguð uppbygging verði á forsendum loftslagsmála, jöfnuðar og gæða borgarumhverfisins.

Við eigum að vera óhrædd við halda áfram á sömu braut og taka slaginn. Mikilvægum breytingum fylgja átök og við þurfum að hafa hugrekki til að fylgja þeim verkefnum eftir alla leið. Við verðum að ganga skýrt áfram í þá átt að losa okkur undan álögum einkabílsins. Skiptir Borgarlínan þar lykilmáli en tryggja þarf að verkefnið verði framkvæmt af sama metnaði og settur hefur verið í undirbúning framkvæmdarinnar. Við þurfum að stórbæta öryggi gangandi og hjólandi, setja þessa hópa í forgang, og já, stundum mun það kalla á ákveðna aðför að einkabílnum.

Við þurfum að tryggja fjölbreytta búsetukosti og gæta þess að í nýjum hverfum verði einnig íbúðir fyrir tekjulægri hópa. Í eldri hverfum eigum við að styðja við heilbrigða endurnýjun umhverfisins. Allt snýr þetta að sjálfbærni einstakra borgarhluta og borgarinnar í heild sinni en ég trúi einnig að þessar aðgerðir snúi að gæðum byggðarinnar. Þar sem er jafnt aðgengi, fjölbreytt mann- og dýralíf, gróður og gróska er gott að vera.

Ég hef mikinn metnað fyrir hönd borgarinnar og tel okkur í dauðafæri á að byggja hér upp spennandi og fjölbreytt borgarsamfélag. Við eigum að leyfa okkur að hugsa stórt en einnig þora að fylgja eftir mikilvægum og flóknum verkefnum. Listinn er langur en tækifærið er núna til að gera breytingar sem skipta máli til langrar og grænni framtíðar, því meiri borg er betri borg.

Áherslur: borgarlína, borgarlína, borgarlína…

Undanfarin ár hef ég lifað og hrærst í skipulagsmálum borgarinnar og það er einlæg sannfæring mín að á þeim vettvangi sé lagður grunnur fyrir mörg af mikilvægustu málefnum samtímans. Með góðu borgarskipulagi náum við markmiðum okkar í loftlagsmálum og í gegnum þau er hægt að móta ramma til að jafna tækifæri fólks og ýta undir meiri jöfnuð í samfélaginu.

Smellið hér til að lesa meira um mín helstu baráttumál.