Ég heiti Birkir Ingibjartsson, er menntaður arkitekt og hef síðustu 4 ár verið varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar. Á þeim tíma hef ég verið varamaður í umhverfis- og skipulagsráði, var formaður íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis til loka árs 2024 og setið í Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur frá febrúar 2025. Samhliða pólitískum störfum hefur mitt aðalstarf verið að starfa sjálfstætt sem arkitekt við hin ýmsu verkefni á sviði húsagerðar og skipulags. Þar áður var ég verkefnastjóri hjá borgarskipulagi Reykjavíkur í þrjú ár þar sem tók þátt í þróun skipulags á stórum og litlum uppbyggingarsvæðum í borginni.
Ég er 39 ára gamall og er giftur Steinunni Björg Hrólfsdóttur fatahönnuði og eiganda fataverslunarinnar Andrá Reykjavík. Við eigum þrjú dásamleg börn, Fanney Ingu 20 ára, Áróru Ester 9 ára og Hrólf Breka 5 ára. Við erum búsett í Safamýri og erum því hluti af borgarhluta 5 - Háaleiti og Bústaðir.
Ég er uppalinn í Kópavoginum en hef frá því ég var tæplega tvítugur búið eða verið með annan fótinn í Reykjavík, helst eru þá frátalin þau tæpu fimm ár þegar við fjölskyldan bjuggum í Stokkhólmi. Þar tók ég mitt mastersnám í arkitektúr í KTH. Ég tók grunnnámið í arkitektúr við Listaháskóla Íslands á árunum 2009-2012 og smitaðist þar af miklum áhuga á arkitektúr og skipulagsmálum í Reykjavík. Þar áður lauk ég grunnnámi í umhverfis- og byggingarverkfræði við Háskóla Íslands en fann að því námi loknu að byggingarlistinn kallaði á mig.
Í frítíma mínum hef ég hef gaman að því að ferðast innanlands sem utan, fylgjast með eða spila fótbolta og hjóla um og skoða borgina okkar. Betri ferðamáta innan borgarinnar veit ég ekki og ég reyni að hjóla til vinnu stóran hluta árs. Hjólið mitt er gamall racer sem ég keypti út í Stokkhólmi og ég viðurkenni fúslega að ég elska það. Yfir hörðustu vetrarmánuðina fær hjólið þó oft góða hvíld á köflum en þá reiði ég mig í staðinn gjarnan á strætó til og frá vinnu.